Þetta er @hunteiknar

Updated: Jun 20, 2019

Þetta er @hunteiknar


Líkt mörgum öðrum hef ég velt fyrir mér hvert sviðsnafnið mitt væri ef ég yrði nokkurn tímann fræg. Það var ekki fyrr en fyrir stuttu síðan sem ég áttaði mig á því að ég á sviðsnafn og að ég þurfti ekki að verða fræg til að eignast það. Mér til ákveðinnar gleði en aðallega mikils ama er “sviðsnafnið” mitt @hunteiknar, sem er notandanafn á Instagram sem ég valdi fyrir þremur árum.


Árið 2016 bjó ég til Instagram reikninginn @hunteiknar með það að augnamiði að geyma það sem ég bý til á einum stað. Jú, og auðvitað til að gera mig fræga; ég er ekki mikið dýpri en hver annar unglingur. Þegar ég byrjaði teiknaði ég mikið og deildi öllu með ættingjum mínum og nánustu vinkonunum mínum. Það leið örugglega heilt ár, jafnvel meira, þangað til ég fékk fleiri en 26 fylgjendur, og þó draumurinn minn um frægð væri ekki beinlínis að rætast var ég sátt.


Í lok árs 2017 byrjaði ég að teikna stafrænt. Það breytti stílnum mínum mjög mikið. Ég fór úr emo en fíngerðum pennateikningum í litríkar en einfaldar iPad myndir. Ein af þessum myndum var mynd af afmyndaðri Bratzdúkku sem ég lagði nákvæmlega engan metnað í og deildi í flýti. Einhverra hluta vegna naut hún vinsælda meðal fylgjenda minna og ég fékk hugmyndina sem breytti miklu fyrir bæði mig og @hunteiknar.


Hugmyndin, sem ég kalla ”Bratztur”, byrjaði snemma árið 2019 þegar ég hóf sölu á símahulstrum með fyrrnefndri mynd af Bratzdúkku á Instagram. Ég vildi sjá hvort fólk hefði raunverulegan áhuga á því sem ég geri. Væntingarnar mínar voru litlar en þökk sé fólkinu í kringum mig, sem deilir öllu sem ég geri, fór salan langt fram úr væntingum.


Bratztur eiga sérstakan stað í hjartanu mínu, enda hafa þau gert ótrúlega mikið fyrir mig. Mér finnst skrítið að hugsa til þess að örugglega metnaðarminnsta mynd sem ég hef gert skuli vera mér svona mikilvæg. Það sýnir hvað framtíðin er óútreiknanleg og hlakka ég fyrir vikið til að sjá hvað hún hefur að geyma. Vonandi pöntun frá þér, kæri lesandi, í dm hjá @hunteiknar á Instagram ;)


Eva Sóldís Bragadóttir


©2017-2020 by Saga María